Í Danmörku kallar maður allar kökur sem eru settar saman í fleiri lög fyrir lagkökur. Á Íslandi kallar maður þær tertur og ef þær eru í mörgum lögum eða eru sérlega mettandi og glæsilegar, Hnallþórur, sem mér finnst skemmtilegt heiti.
Eftir að við fluttum til Danmerkur, mekka konditorimeistara, hef ég lesið mig til um bakstur í bókum Claus Meyer og lært ýmislegt praktískt af Mette Blomsterberg. Blomsterberg notar oftast flórsykur í stað sykurs eða blandar þessu tvennu saman. Mér hefur reynst vel að fara eftir ráðum Blomsterberg hvað varðar bakstur.
Íslensk lagkaka |
Mína útgáfu af tertunni kalla ég Íslenska lagköku. Ég breytti uppskriftinni með því að skipta flórsykri út fyrir strásykur, þannig verður tertubotninn mýkri og deigið stífnar betur í þeytingunni. Botninn er úr kókósmjöli, eggjahvítum og flórsykri, kremið úr súkkulaði, eggjarauðum, flórsykri og smjöri og ofan á kökuna er þeyttur rjómi með viðbættum flórsykri og vanillu. Kökuna má skreyta með berjum eða ávöxtum, t.d. jarðarberjum, hindberjum eða/og bláberjum og ég er viss um að kjarnarnir úr ástaraldin færu henni vel.
Þegar keypt er inn hráefni í kökuna er mikilvægt að kaupa góð egg, meðalstór eða stór, ekki gerilsneyddar eggjahvítur, sem ég veit ekki hvort eru framleidd á Íslandi, en þau kaupir maður gjarnan hér ytra ef nota á hrá egg. Gerilsneyddar eggjahvítur þeytast illa. Ég kaupi hinsvegar gerilsneyddar eggjarauður í kremið. Ég nota súkkulaði 50-60% kakóinnihaldi en það má gjarnan nota allt að 70%, þó ekki dekkra því þá verður bragðið af kreminu biturt. Ég kaupi bourbon vanillustangir þar sem þær eru oftast það ferskasta sem ég fæ í verslunum en auðvitað má nota hvaða vanillu sem er. Kaupið fíngert kókósmjöl.
Uppskriftin
Hitið ofninn í 160 gráður og setjið bökunarristina á næstu rim undir miðju.
Klæðið botninn á 26 cm smelluformi með bökunarpappír og smyrjið kantana með smjöri og sykri.
Botn
5 eggjahvítur
225 g flórsykur
225 g kókósmjöl
Krem
150 g súkkulaði
50 g smjör
3 eggjarauður
50 g flórsykur
Þeyttur rjómi
1/2 l rjómi
3 msk flórsykur
korn úr 1 vanillustöng
Skreyting
Jarðarber, hindber, bláber, vel skoluð og þerruð.
Setjið eggjahvíturnar í skál og þeytið létt, bætið flórsykri út í með skeið, rólega og hrærið á meðan. Stífþeytið þar til deigið er mjög stíft. Bætið kókósmjölinu út í og hrærið saman við deigið með sleif. Smyrjið með sleikju í formið og bakið í 40 mínútur eða þar til botninn hefur tekið á sig örlítinn lit og hefur dregist aðeins frá kantinum. Bakið þó varlega og alls ekki of lengi því þá verður botninn þurr.
Takið kökuna út úr ofninum, látið kólna.
Bræðið súkkulaðið við lágan hita ásamt smjöri, hrærið í á meðan. Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til það er orðið að stífum massa. Blandið súkkulaðinu saman við með sleikju og setjið kremið strax á kaldan botninn. Kælið kökuna vel og hana má jafnvel frysta með kreminu.
Þeytið rjómann með flórsykrinum og vanillunni. Forðist að ofþeyta en setjið ekki rjómann á kökuna fyrr en rétt áður en hún er borin fram. Skreytið kökuna með berjum eða öðrum ávöxtum sem ykkur líkar vel.
No comments:
Post a Comment