Thursday, April 13, 2017

Afmæliskringla

Afmæliskringla eins og mamma bakaði fyrir afmæli okkar systkinanna

Móeiður og Vigfús deila sinni og eiga afmæli 25. og 26. október.

Uppskrift

4,5 dl vatn
150 g smjör
195 g hveiti
6 egg

Ein krukka góð berjasulta, gjarnan bláberja og 1/2 lítri af þeyttum rjóma.
Flórsykur, kakó og soðið  vatn í glassúr.

Hitið vatn og smjör í potti að suðu. Slökkvið á hitanum, setjið hveitið út í og hafið pottinn áfram á hellunni. Hrærið kröftuglega og stöðugt þar til upphandleggirnir dofna og deigið hangir vel saman og sleppir pottinum :-) Takið deigið út pottinum og látið í hrærivélaskál, látið það bíða í 10 mín. Hrærið nú eggin í, eitt í einu og þeytið vel á milli. Ef eggin eru stór, getur verið að 5 stk séu nóg. Teiknið kringlu á bökunarpappír á bökunarplötu. Sprautið deiginu á plötuna og bakið í miðjum ofni við 200 gráður í 30-40 mínútur, eða þar til þið metið að kakan sé tilbúin. Það má alls ekki opna ofninn á meðan á bakstrinum stendur. 

Látið kökuna kólna. Skerið hana í sundur þvert, takið toppinn varlega af og smyrjið sultu og því næst rjóma á milli. Leggið toppinn á og setjið glassúr ofan á. Að lokum sprautið rjóma á toppinn á kökunni og skreytið með fánum, kertum og jafnvel ferskum berjum.