Sunday, March 24, 2013

Hindberjasnittur / Hindbærsnitter




 Þessi uppskrift er sú fyrsta ættuð frá Danmörku sem hefur fest sig i sessi sem ein af fjölskylduuppskriftum okkar.Uppskriftin kemur upprunalega frá Mette Blomsterberg sem er konditori meistari í Kaupmannahöfn og rekur þar tvö kaffihús, meðal annars kaffihúsið á Glyptoteket safninu í miðborginni. Huggulegt kaffihús sem er vel þess virði að heimsækja ef maður á leið til hinnar konunglegu Kaupmannahafnar. Við stelpurnar horfum reglulega á þættina hennar Blomsterberg Det søde liv

Hindberjasnitturnar eru ómissandi í ferðalagið, skógarferðina og dásamlegar með sunnudagskaffinu. Þær geymast vel á köldum stað í allt að tvær vikur. Í stað góðrar hindberjasultu höfum við notað okkar heimalagaða jarðaberjamarmelaði og ég er viss um að góð heimalöguð rabbabarasulta væri afbragð í snitturnar. 

Hér kemur uppskriftin!

Blombergs Hindberjasnittur

Smjördeig:
1/2 stk vanillustöng
70 g flórsykur
150 g smjör við stofuhita
250 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 dl vatn

Fylling:
250 g gott hindberjamarmelaði

Glassúr:
200 g flórsykur
sítrónusafi, ca 2 msk úr ferskri sítrónu
ofurlítið vatn

Kökuskraut til skreytingar, má sleppa.

Aðferð:
 
Vanillustöngin klofin og kornin skafin úr. Smjöri, flórsykri og vanillu blandað saman í hrærivél með hnoðjárni. Hveiti og lyftidufti blandað saman og sett út í og síðast er vatninu bætt í. Hnoðið saman þar til deigið loðir vel saman. Kælið í ca klukkustund.

Handfylli af deiginu formað í pylsu og svo flatt út í ferkant ca 10x30 cm. Rúllað upp á kökukefli og flutt yfir á bökunarpappírsklædda bökunarplötu. Sultu smurt á og annar ferkantur flattur út og lagður ofan á (sultan er á milli). Deigið ætti að duga í ca tvær lengjur. 

Ofninn er hitaður í 200 gráður og lengjurnar bakaðar í ca 10-12 mínútur.

Kældar og glassúr settur ofan á ásamt kökuskrauti.

 Opskrift på dansk



Ilmur bíður óþreyjufull eftir að fá að smakka.